“Sá sem vill eignast sem mest - sem skjótast - á hiklaust að taka erlent húsnæðislán” (Ingólfur Ingólfsson, 23.1.2007, Stöð 2)

Lánveiting í erlendri mynt til að fjármagna íbúðarhúsnæði á Íslandi hefur jafnan vakið furðu mína. Það er viðtekin venja í fjármálafræði og almennt viðurkennd góð fjármálaráðgjöf að ráðleggja fólki að taka lán til húsnæðiskaupa í þeirri mynt sem það hefur tekjur, það greiðir jú af húsnæðisláni með tekjum sem það aflar. Þess utan ættu einstaklingar jafnan ekki að bæta sérstakri gengisáhættu við aðra áhættu sem fylgir fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Vilji einstaklingar taka áhættu í fjárfestingum þá eru margar aðrar færar leiðir til þess, þ.m.t. spekúlatívar gjaldeyrisfjárfestingar. Í rauninni ætti ekki að vera þörf á því að fjölyrða um þessa augljósu staðreynd frekar.

Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd er stór hluti íbúðalána á Íslandi í erlendri mynt. Framan af voru erlend íbúðalán veitt útvöldum aðilum. Þegar eftirspurn jókst eftir þessum lánum áttu bankar í vök að verjast og létu loks undan þrýstingi almennings, sem þeir hefðu betur ekki gert. Bankarnir bera ábyrgð sem fjármálaráðgjafar og hefðu betur stigið fastar í lappirnar.     

Ég hef í fyrri bloggi mínu gagnrýnt innlenda banka fyrir vangá og ranga ráðgjöf í þessum efnum. En það voru fleiri sem juku á þrýsting banka um að veita erlend lán til íbúðakaupa og bera einnig ábyrgð.  

Ingólfur Ingólfsson, fjármálaráðgjafi hjá Sparnaði ehf., var ötull talsmaður þess að íslendingar tækju lán í erlendri mynt, hér er útdráttur úr fréttum Stöðvar 2 frá 23. janúar 2007 :   

 "Gengisáhætta af erlendum húsnæðislánum er sáralítil, segir sjálfstæður fjármálaráðgjafi. Ef fólk þolir upp undir tuttugu prósenta sveiflu í greiðslubyrði af húsnæðislánum eru erlend lán hagstæðasti kosturinn. Sá sem vill eignast sem mest - sem skjótast - á hiklaust að taka erlent húsnæðislán"  segir Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi. Erlendu lánin séu ódýrari, það er að segja, heildargreiðsla fyrir verðtryggt krónulán er hærri en fyrir erlendu húsnæðislánin. Munurinn getur orðið allt að 25 milljónir af 20 milljóna króna láni til 40 ára eins og fram hefur komið.

En, gengisáhættan er gríðarleg, eins og hagfræðingur ASÍ, sagði í fréttum okkar í gærkvöldi.

"Úrtöluraddir" segir Ingólfur. "Þessi teoría gengur bara ekki upp í vaxtaumhverfinu á Íslandi. Við erum að borga nú þegar í dag um 5% vexti og 7% verðtryggingu og verðtryggingin er ekkert annað en vextir sem leggjast á höfuðstólinn. Þannig að áhættan af því að taka erlend lán er sáralítil."

Ingólfur bendir á að fall á gengi hækkar verðbólgu og þar með krónulánin okkar - þótt mánaðarlegar afborganir haldist tiltölulega jafnar. En hvað þarf fólk að geta þolað miklar sveiflur í afborgunum af erlendu lánunum? "Við skulum gera ráð fyrir 10-20% gengissveiflu. Það þýðir að ef að þú ert með 20 milljón króna erlent lán, greiðslubyrðin er um 100 þúsund af því, þá mega menn gera ráð fyrir að á einhverju tímabili fari greiðslubyrðin í 110-120 þúsund krónur." (heimild:útdráttur úr frétt Stöðvar 2, 23. jan. 2007 18:45)

Það er ekki ástæða að ræða efnisatriði þessa málflutnings, forsendur sem Ingólfur gefur sér eru ákaflega takmarkaðar, eins og kaldur raunveruleikinn hefur staðfest, málflutningur Ingólfs ber vott um vanþekkingu. Okkur nokkrum þótti þessi málflutningur jafn skrítinn þá þegar hann var viðhafður eins og hann er nú í ljósi þess sem gerst hefur og héldum því honum til haga.

Á þessum tíma jókst þrýstingur á banka að veita erlend lán og ég geri ráð fyrir að þessi umfjöllun hafi ekki dregið úr þeim þrýstingi. Í kjölfar þessa og fyrir atbeina Ingólfs tóku aðilar sem voru mér nánir erlend lán, þrátt fyrir aðvörun mína og fleiri, og guldu fyrir það dýrum dómi. Önnur ráðgjöf og seld þjónusta Sparnaðar ehf. sem ég þekki til hefur orkað tvímælis en að því kann að verða vikið síðar.

Það skal tekið fram að ég þekki ekki þennan Ingólf, en ég hef enga ástæðu til að ætla að hann hafi veitt þessa röngu ráðgjöf af illkvittni, heldur er líklegra að það sé gert af vanþekkingu. Ingólfur titlar sig félagsfræðing og fjármálaráðgjafa, það kemur ekki fram í hans gögnum eftir því sem ég best fæ séð hvar eða hvort hann nam fjármálafræði.

Í dag selur Sparnaður ehf. lífeyrissparnað með liði harðsnúinna sölumanna, við verðum að vona að grunnur ráðgjafar í þeim efnum sé haldbetri en ráðgjöf þeirra um erlend lán vegna íbúðarhúsnæðis og annarrar ráðgjafar.  

Það vekur undrun að enginn skuli hafa stigið fram til þessa og sett fyrirvara á ráðgjöf Sparnaðar ehf., þvert á móti er Ingólfur enn álitsgjafi í fjölmiðlum um málefni sem hann virðist hafa takmarkaða þekkingu á. Einnig velti ég því upp hvort ekki sé ástæða til að Viðskiptaráðuneytið veiti leyfi og vottun fyrir starfsemi eins og fjármálaráðgjöf til handa almenningi.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega sammála þessu. Mér finnst Ingólfur hafa fengið að vaða uppi of lengi og farið með hann silkihönskum í útvarpi og sjónvarpi.

Þorsteinn, þú hittir naglann á höfuðið með vanþekkinguna, því það eru ákaflega takmarkaðar forsendur sem virðast liggja á bakvið þessa ráðgjöf. Það er ekki einu orði minnst á vaxtaáhættu sem af erlendri lántöku hlýst heldur eru ófullnægjandi forsendur settar fram er varðar sveiflur á gengisvísitölu íslensku krónunnar - sem og tengsl gengisvísitölu íslensku krónunnar við verðbólgu.

Lalli (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 16:21

2 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Ég var ein af þessu fólki sem fór á fyrirlestur hjá honum, það voru 200 manns eða fleiri í hverri viku að hlusta á hann predika yfir fólki hvað þetta væri gott og sniðugt að fá sér erlend lán, jú eflaust hefði það verið sniðugt ef krónan hefði haldist stöðug, en það er fullt af fólki sem féll fyrir þessu og þar á meðal ég og nú erum við hjónin í óvissum það hvort við náum að halda okkar húsi eða ekki. Mér finnst hann vera hræsnari sem hagnast á öðru fólki og hana nú, nú er þetta opinbert

Guðborg Eyjólfsdóttir, 13.5.2009 kl. 16:56

3 Smámynd: Þorsteinn Guðnason

Þakka ykkur athugasemdir Lalli og Guðborg. Það er leitt að heyra að þið hjónin eruð í óvissu, Guðborg, vonanadi verða aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar ykkur hjálplegar. Því miður eru margir sem eru í svipaðri stöðu og þið. Málflutningur þeirra sem hvöttu til lántöku í erlendri mynt var yfirboðskenndur og að því er virðist af byggður á vanþekkingu.  

Þorsteinn Guðnason, 13.5.2009 kl. 18:33

4 identicon

Frábær grein en hefði jafnvel mátt taka sterkar til orða þar sem þessi ráðgjöf hefur kostað margar fjölskyldur aleiguna. Í stuttu máli þá vissi hver einasti fjármálasinnaði einstaklingur að krónan og hlutabréfaverð voru alltof hátt skráð árið 2007. Menn ræddu sín á milli hversu lengi þetta ætti að endast áður en hrunið kæmi.

Á meðan þessi staða er yfirvofandi gengur Ingólfur auk margra starfsmanna bankanna hart fram í að fá fólk til að taka erlend lán. Það leiðir til tímabundinnar styrkingar krónunnar og heldur draumagenginu uppi enn lengur, flestir vissu þó að gengið myndi falla og spáðu flestir 20-25% aðrir 50% og einstaka starfsmenn t.d. Andri hjá Saga Capital spáðu hruni.

Mér er sama hvort það er Ingólfur eða einhver bankastarfsmaður, það er einfaldlega þannig að þeir sem selja fjármálaþjónustu verða að vita hvað þeir eru að tala um. Líklega væri best að krefjast skaðabótaskyldu ef fjármálaráðgjafinn vissi eða hefði mátt vita að ráðgjöf gæti leitt til verulegs taps viðskiptavinarins og skýrði honum ekki frá því.

Það er enginn saklaus en sumir bera beina ábyrgð, menn sem beinlínis þrýstu á fólk til að losa sparnað, taka erlend lán og fjárfesta í pappírsfélögum. Þeir eiga ekki að starfa við fjármálageirann hér eftir, Ingólfur er einn þeirra sem á að biðjast afsökunar og finna sér nýja vinnu.

Agust Bjarnason (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 13:24

5 identicon

Það sem er kannski athyglisverðast af öllu er að Ingólfur er ennþá fenginn í hina og þessa þætti þar sem hann er beðinn um að meta ástandið í dag. Af hverju er enginn að spyrja hann um þessa "frábæru" ráðgjöf frá 2007?

Snorri (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 13:45

6 identicon

Já, er aldrei spurður gagnrýnna spurninga. Bæði Ísland í bítið og Silfur Egils leyfa honum að komast upp með það að selja vörurnar sínar án nokkurrar gagnrýni. Fjölmiðlar virðast líta á hann sem einhvern hugsjónamann sem ENGA ábyrgð ber á því hvernig málin standa. Ótrúlegt. Um leið og Byr fór að bjóða niðurgreiðsluþjónustu frítt, sem Ingólfur sjálfur rukkar fyrir, þá fór hann beint í útvarpið í markaðslegt "rescue response" þar sem hann fer að leggja áherslur á hinar vörurnar sínar...og hverjar eru þær? Nei, hann segir það ekki beint, heldur þarf fólk að koma til að sjá...gæti hugsanlega verið rándýr lífeyrissparnaður??! 

Fólk má ekki gleyma því að Sparnaður ehf. er hagnaðardrifið fyrirtæki sem selur þjónustu sem auðveldlega er hægt að fá í útibúum bankanna og sparisjóðanna frítt. Þar eru þjónustufulltrúar menntaðir í fjármálum. Ingólfur er félagsfræðingur og hans starfsfólk eru sölumenn en ekki ráðgjafar...a.m.k. auglýsir hann eftir sölumönnum til starfa hjá sér og virðast það vera aðalhæfniskröfurnar sem hann setur.

Ingólfur er í þessu til að græða peninga - sem er hið eðlilegasta mál - en ekki "tríta" hann sem einhvern hugsjónarmann sem er yfir alla gagnrýni hafinn.  

Lalli (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 17:34

7 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þegar við höfðum val um að taka erlent lán eða innlent lán blasti við að það borgaði sig að taka erlenda lánið. Eina sem ekki var gert ráð fyrir, og það gerði enginn, ekki Þorsteinn Guðnason, ekki Ingólfur Ingólfsson eða aðrir, ráð fyrir algjöru hruni. Ég man ekki hvað gengið á krónunni mátti veikjast mikið áður en það borgaði sig að taka innlent lán samkvæmt okkar útreikningum í excel, en það var afar mikið. Gott er að vera vitur eftir á.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 15.5.2009 kl. 13:06

8 Smámynd: Þorsteinn Guðnason

Þakka þér athugasemdir Sigurgeir. Ég hef reyndar alla tíð varað fólk við því að taka erlent lán til að fjármagna íbúðarhúsnæði.

Þú segir það hafa blasað við að það borgaði sig að taka erlenda lánið og ennfremur gefur þú í skyn að gengi krónunnar mátti veikjast verulega áður en það borgaði sig að taka innlent lán samkvæmt ykkar útreikningum í excel. Vandamál ykkar Ingólfs liggur í því að þið gáfuð ykkur rangar forsendur í ykkar útreikningum, og "fjármálaráðgjafinn" Ingólfur hikar ekki við að fullyrða að "gengisáhætta af erlendum húsnæðislánum er sáralítil". Þar liggur hundurinn grafinn, gengisáhætta af erlendum húsnæðislánum hefur verið og er mikil á Íslandi eins og raun ber vitni. 

Þorsteinn Guðnason, 15.5.2009 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband