Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

“Sá sem vill eignast sem mest - sem skjótast - á hiklaust að taka erlent húsnæðislán” (Ingólfur Ingólfsson, 23.1.2007, Stöð 2)

Lánveiting í erlendri mynt til að fjármagna íbúðarhúsnæði á Íslandi hefur jafnan vakið furðu mína. Það er viðtekin venja í fjármálafræði og almennt viðurkennd góð fjármálaráðgjöf að ráðleggja fólki að taka lán til húsnæðiskaupa í þeirri mynt sem það hefur tekjur, það greiðir jú af húsnæðisláni með tekjum sem það aflar. Þess utan ættu einstaklingar jafnan ekki að bæta sérstakri gengisáhættu við aðra áhættu sem fylgir fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Vilji einstaklingar taka áhættu í fjárfestingum þá eru margar aðrar færar leiðir til þess, þ.m.t. spekúlatívar gjaldeyrisfjárfestingar. Í rauninni ætti ekki að vera þörf á því að fjölyrða um þessa augljósu staðreynd frekar.

Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd er stór hluti íbúðalána á Íslandi í erlendri mynt. Framan af voru erlend íbúðalán veitt útvöldum aðilum. Þegar eftirspurn jókst eftir þessum lánum áttu bankar í vök að verjast og létu loks undan þrýstingi almennings, sem þeir hefðu betur ekki gert. Bankarnir bera ábyrgð sem fjármálaráðgjafar og hefðu betur stigið fastar í lappirnar.     

Ég hef í fyrri bloggi mínu gagnrýnt innlenda banka fyrir vangá og ranga ráðgjöf í þessum efnum. En það voru fleiri sem juku á þrýsting banka um að veita erlend lán til íbúðakaupa og bera einnig ábyrgð.  

Ingólfur Ingólfsson, fjármálaráðgjafi hjá Sparnaði ehf., var ötull talsmaður þess að íslendingar tækju lán í erlendri mynt, hér er útdráttur úr fréttum Stöðvar 2 frá 23. janúar 2007 :   

 "Gengisáhætta af erlendum húsnæðislánum er sáralítil, segir sjálfstæður fjármálaráðgjafi. Ef fólk þolir upp undir tuttugu prósenta sveiflu í greiðslubyrði af húsnæðislánum eru erlend lán hagstæðasti kosturinn. Sá sem vill eignast sem mest - sem skjótast - á hiklaust að taka erlent húsnæðislán"  segir Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi. Erlendu lánin séu ódýrari, það er að segja, heildargreiðsla fyrir verðtryggt krónulán er hærri en fyrir erlendu húsnæðislánin. Munurinn getur orðið allt að 25 milljónir af 20 milljóna króna láni til 40 ára eins og fram hefur komið.

En, gengisáhættan er gríðarleg, eins og hagfræðingur ASÍ, sagði í fréttum okkar í gærkvöldi.

"Úrtöluraddir" segir Ingólfur. "Þessi teoría gengur bara ekki upp í vaxtaumhverfinu á Íslandi. Við erum að borga nú þegar í dag um 5% vexti og 7% verðtryggingu og verðtryggingin er ekkert annað en vextir sem leggjast á höfuðstólinn. Þannig að áhættan af því að taka erlend lán er sáralítil."

Ingólfur bendir á að fall á gengi hækkar verðbólgu og þar með krónulánin okkar - þótt mánaðarlegar afborganir haldist tiltölulega jafnar. En hvað þarf fólk að geta þolað miklar sveiflur í afborgunum af erlendu lánunum? "Við skulum gera ráð fyrir 10-20% gengissveiflu. Það þýðir að ef að þú ert með 20 milljón króna erlent lán, greiðslubyrðin er um 100 þúsund af því, þá mega menn gera ráð fyrir að á einhverju tímabili fari greiðslubyrðin í 110-120 þúsund krónur." (heimild:útdráttur úr frétt Stöðvar 2, 23. jan. 2007 18:45)

Það er ekki ástæða að ræða efnisatriði þessa málflutnings, forsendur sem Ingólfur gefur sér eru ákaflega takmarkaðar, eins og kaldur raunveruleikinn hefur staðfest, málflutningur Ingólfs ber vott um vanþekkingu. Okkur nokkrum þótti þessi málflutningur jafn skrítinn þá þegar hann var viðhafður eins og hann er nú í ljósi þess sem gerst hefur og héldum því honum til haga.

Á þessum tíma jókst þrýstingur á banka að veita erlend lán og ég geri ráð fyrir að þessi umfjöllun hafi ekki dregið úr þeim þrýstingi. Í kjölfar þessa og fyrir atbeina Ingólfs tóku aðilar sem voru mér nánir erlend lán, þrátt fyrir aðvörun mína og fleiri, og guldu fyrir það dýrum dómi. Önnur ráðgjöf og seld þjónusta Sparnaðar ehf. sem ég þekki til hefur orkað tvímælis en að því kann að verða vikið síðar.

Það skal tekið fram að ég þekki ekki þennan Ingólf, en ég hef enga ástæðu til að ætla að hann hafi veitt þessa röngu ráðgjöf af illkvittni, heldur er líklegra að það sé gert af vanþekkingu. Ingólfur titlar sig félagsfræðing og fjármálaráðgjafa, það kemur ekki fram í hans gögnum eftir því sem ég best fæ séð hvar eða hvort hann nam fjármálafræði.

Í dag selur Sparnaður ehf. lífeyrissparnað með liði harðsnúinna sölumanna, við verðum að vona að grunnur ráðgjafar í þeim efnum sé haldbetri en ráðgjöf þeirra um erlend lán vegna íbúðarhúsnæðis og annarrar ráðgjafar.  

Það vekur undrun að enginn skuli hafa stigið fram til þessa og sett fyrirvara á ráðgjöf Sparnaðar ehf., þvert á móti er Ingólfur enn álitsgjafi í fjölmiðlum um málefni sem hann virðist hafa takmarkaða þekkingu á. Einnig velti ég því upp hvort ekki sé ástæða til að Viðskiptaráðuneytið veiti leyfi og vottun fyrir starfsemi eins og fjármálaráðgjöf til handa almenningi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband