ERLENDIR BANKAR ÆSKILEGIR Á ÍSLANDI
14.4.2009 | 10:43
Það er kannski að bera í bakkafullann lækinn að fjalla um vansann í íslenskri bankastarfsemi og hvað betur megi þar fara, því hafa verið gerð góð skil. Þó er sjónarhorn á þeirri umræðu sem hefur ekki farið mikið fyrir en það er mikilvægi þess að fá erlenda banka til starfa á Íslandi.
Ég vil halda því fram að það sé afar æskilegt fyrir íslenskt atvinnulíf, íslensk heimili og íslenskt þjóðfélag yfirhöfuð að hér starfi erlendir bankar og innleiði hér vestræna bankamenningu. Vestræn bankamenning hefði komið í veg fyrir mörg óvönduð vinnubrögð íslenskra banka á síðustu árum. Hér á ég ekki eingöngu við offar stærstu eigenda bankanna í lántöku og í ólöglegri handstýringu (manipulation) gengis hlutabréfa bankanna og annað sukk sem viðgekkst meðal eigenda og æðstu stjórnenda bankanna og gerð hafa verið skil í umræðunni. Nei, hér er ég að tala um m.a. almenna ráðgjöf í ávöxtun og fjárfestingum, formlegum frágangi skjala, ráðgjöf í lántökum og alla almenna bankastarfsemi, en þar var víða pottur brotinn í grundvallaratriðum. Ég er ekki að agnúast hér útí starfsmenn bankanna sem voru í góðri trú og voru í mörgu farsælir, duglegir starfsmenn, ekki illa innrættir og hafa ekki gert mistök vísvitandi.
Hefðbundin bankaviðskipti hafa verið stunduð frá því fyrir fæðingu Krists. Talið er að fyrstu gjaldeyrisviðskiptin þar sem tekið var lán í einum gjaldmiðli og greitt með öðrum hafi átt sér stað á 12. öld. Grunnur að vestrænni bankastarfsemi eins og við þekkjum hana í dag má rekja til alþýðuhúsa (pubs) í London á 16. öld, kauphöllin í London var stofnuð í einu slíku alþýðuhúsi árið 1565. Í 500 ár hafa bankar starfað og þróast í Evrópu og víðar. Samhliða þessari aldalöngu þróun í bankaviðskiptum hafa mótast gildi og grundvallaratriði, meitluð viðmið og menning sem er hornsteinn nútíma vestrænnar bankastarfsemi.
Ég fullyrði að enginn - ég endurtek enginn - vestrænn banki hefði framkvæmt þá gjörninga sem tíundaðir eru hér að neðan og íslenskir bankar framkvæmdu, þar sem þeir ganga í berhögg við grundvallaratriði og viðmið í vestrænni bankamenningu:
- Fulltrúi banka hringdi í liðlega áttatíu ára ekkju vorið 2008 og ráðlagði henni að taka út af sparisjóðsbók sem hún hafði nýverið gert samning um og setja í peningasjóðsbréf (3/4) og hlutabréf að hluta í viðkomandi banka (1/4). Ekkjan fór að ráðum bankans og tapaði stórum hluta ævisparnaðar fjölskyldu sinnar.
- Ekki var gengið formlega / skriflega frá gjaldeyrisskiptasamningum á milli banka og viðskiptavinar þó slíkt bæri að gera, bankinn tapaði því kröfunni.
- Ungum hjónum var ráðlagt að taka erlend langtíma veðlán vegna kaupa á húsnæði, bæði höfðu tekjur í íslenskri krónu, skuldir þeirra eru nú hærri en markaðsverð fasteignarinnar en eigið fé þeirra var 1/3 af verðmæti fasteignarinnar fyrir lántöku.
- Ungri konu sem nýverið hafði fest kaup á íbúð og fékk lífeyrissjóðslán 2 mánuðum áður en hún átti að greiða íbúðina var ráðlagt að setja peningana í peningasjóðsbréf í þessa 2 mánuði, hún tapaði stórum hluta fjárhæðarinnar í bankahruninu.
Þessi dæmi láta et.v. ekki mikið yfir sér en þetta eru eingöngu tilvik sem standa nærri mér og ég þekki persónulega, ég veit hins vegar af urmul annarra viðlíkra tilvika af afspurn. Áttatíu ára ekkjur taka aldrei áhættu með sparnað sinn, formlegur samningur banka við viðskiptamann er ætíð skriflegur, erlend húsnæðislán fyrir fólk með tekjur í heimamynt er óeðlilegur, banki ráðleggur ekki áhættufjárfestingar til skamms tíma með peninga sem ætlaðir eru til húsakaupa.
Fyrstu rúmlega 100 árin í sögu íslensku bankanna eða svo (LÍ stofnaður 1886) einkenndust af ónógu fjármagni, höftum, skömmtunum, ríkisafskiptum og pólitískri stjórnun. Við einkavæðingu, sem talin er hafa mistekist, breyttist bankakerfið úr illa stýrðu steinrunnu afturhaldskerfi í frjálslyndan framsækinn fjármálamarkað sem þó reyndist bera ósýnileg illkynja æxli sem voru fóðruð m.a. með óeðlilegum viðskiptaháttum. Slæleg vinnubrögð eigenda og stjórnenda íslenskra banka er alkunna. En það sem vakið hefur minni athygli er að vinnubrögð íslenskra bankastarfsmanna í lægri skör voru stundum á skjön við grundvallaratriði í fjármálaráðgjöf, skortur var á aga og vönduðum vinnubrögðum - þeir tileinkuðu sér ekki almennt viðurkennda vestræna viðmiðum í bankastarfsemi. Um þetta eru mýmörg dæmi, hér að framan voru eingöngu rakin fjögur. Á Íslandi hefur ekki mótast menning í bankastarfsemi.
Verði gerð gangskör í því að fá erlenda banka til starfa hér á landi mun með því verða innleidd vestræn bankamenning, með öguðum og vönduðum vinnubrögðum. Aðrir kostir því samfara eru einnig augljósir, áhættudreifing, frekari aðgengi að fjármagni, þekking, tengslanet, ofl.
Athugasemdir
Þetta eru sláandi dæmi. Við þurfum siðbót í öllu samfélaginu, við þurfum að henykslast á lygum og PR áróðri og hætta að líða svoleiðis, því það smám saman gegnsýrir okkur, varnirnar detta niður, lyginn verður sannleikur, mörkin milli ásættanlegs og andstyggilegs verða óljós og færast til.
Ég persónulega er ekki á þeirri skoðun að við þurfum að fá erlendar barnfóstrur til að kenna okkur þetta, erlenda landshöfðingja, erlenda lénsherra.
Við áttum góða bankamenn sem voru varkárir og heiðarlegir (svona eins og hægt er í bankabransanum). Það trompaðist bara allt á einhverjum punkti og allar hömlur voru fjarlægðar.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 09:10
Þakka þér athugasemdina Gullvagn, sammála þér um að við þurfum hvorki ekki erlendar barnfóstrur, landshöfíngja né lénsherra. En ein leið hins vegar til að uppræta lygar og efla siðbót er að innleiða vestræna bankamenningu, því fylgja líka aðrir kostir. Ég er heldur ekki að agnúast útí góða íslenska bankamenn, þeir eru margir góðir. Við höfum nýtt okkur og notið erlendrar tónlistar, bókmennta ofl., því ekki að njóta góðs af erlendri bankamenningu.
Þorsteinn Guðnason, 16.4.2009 kl. 21:13
Sæll. Ég hef starfað í Landsbankanum í 25-6 ár og ég er sammála þér með að það hefur sárlega vantað erlenda banka hér til að um sé að ræða alvöru samkeppni. Það hefur verið talað um þetta en umhverfið hefur verið þannig að það hefði verið erfitt fyrir erl. banka að fóta sig hér t.d. bara stimpilgjöldin sem hefðu heft flutning milli bankanna. Eg hef tekið upp hanskann fyrir bankamenn en það kann að vera að í restina hafi kappið verið orðið of mikið í sölumönnum bankanna. Það er nú bara þannig að bankamenn hafa verið að hopa fyrir viðskiptamönnum. Fólkið í útibúunum tapaði miklu eins og viðskiptavinirnir . Þeir trúðu sínum yfirmönnum sem lugu í þá blákalt. Góð færsla hjá þér. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 17.4.2009 kl. 19:54
Gott innlegg hjá þér- því miður eru mörg svona dæmi eins og þú nefnir ,bláköld staðreynd hjá hinum almenna Íslendingi. kær kveðja, Birna
Birna Guðmundsdóttir, 18.4.2009 kl. 04:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.